miðvikudagur, júní 27, 2012

Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðalistinr:26

Jæja þá er komið að því. Herlegheitin hefjast núna á komandi flöskudag. Mikið verður það nú gaman. Að sjálfsögðu hafa veðurguðirnir lofað sól og hita allan tíma svo það ætti að vera hægt að ná góðu Tevu-fari um helgina. Eymingja þeir sem missa af þessari gleði. En mikið verður þetta gaman. Það ganga sögur af því að einhverjir ætli að taka forskot á sæluna og fari inneftir á strax á morgun og taki frá flötina góðu. En hvað um það. Hvernig væri að koma sér að máli málanna í kveld.

Stuðpinnar:

Stebbi Twist
Eldri Bróðurinn
Krunka
Bergmann
Frúin
Erfðaprinsinn
Gosi
Danni Djús
Billi
Plástradrottingin
Hvergerðingurinn
Maggi á Móti
Elín
Andrés Þór
Birgir Björn
Bergmann Senor
Lille Bro


Hljómsveitarútur:

Rex
Gullvagninn
Barbí
Bláa þruman


Þá er bara komið að því. Við sjáumst bara um Helgina

Kv
Skráningardeildin

þriðjudagur, júní 26, 2012

Fimm, dimmalimm



Líkt og alþjóð veit sjálfsagt er það næztum því hefð hjá V.Í.N. að tölta yfir Fimmvörðuháls um Jónsmessuhelgina og kanna þar gönguleiðina sem gjöra loka undirbúnings-og eftirlitsferð í Bása á Goðalandi.
Þetta árið var engin undantekning á þessari næztum því hefð. En þetta árið voru það:

Stebbi Twist
Krunka
Eldri Bróðirinn
VJ
Danni Djús
Hvergerðingurinn

og
Mæja Jæja fékk að fljóta með sem góðkunningi hópsins

Sem töltu yfir hálsinn
Svo var það:

Plástradrottningin

Varð svo eftir í Básum þegar brunað var inneftir til að skilja einn bíl þar eftir og dótið.

Við fengum alveg brilliant gönguveður þar sem ekki var of hlýtt né kalt. Þrátt fyrir að hafa fengið smá þoku þá var hún ekki til skemma neitt fyrir nema hvað Hvergerðingurinn misreiknaði sig og gleymdi að fylla á vatnsbirgðir sínar við brúna. En hvað um það. Eftir þessa þoku varð svo nánast heiðskýrt og á sjálfum Hálsinum fengum við sólina til að taka á móti okkur. Allt var frekar hefðbundið, flaggað á Móða, skálað í bjór á Kattahryggjum en bezt var svo að koma í tjaldbúðirnar þar sem Agnes tók á móti okkur byrjuð að elda morgunmat, egg, beikon og pönnukökur. Hafðu beztu þakkir fyrir það Plástradrotting kær.

Eftir stuttan svefn, vegna hita var skotist yfir á Skóga til að sækja Litla Koreustrákinn og Blondí. Eftir það tók grillið svo við og varðeldur. Gaman að sjá loks Bása iða aftur af mannlífi eins og var þarna um síðustu helgi. En fyrir þá sem hafa áhuga þá má skoða myndir hér

Kv
Göngudeildin

mánudagur, júní 25, 2012

Zælir eru hreinir



Líkt og undanfarin ár þá skal halda í Reykjadal næzta Týsdag sem jafnframt er síðasti Týsdagur fyrir Fyrsthelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð. Sem er einmitt um næztu helgi. Sem er magnað því auðvitað vill engin vera skítugur og illa lyktandi þegar Helgin gengur í garð.
Það er hittingur við Gasstöðina og sameinað þar í sjálfrennireyðar og haldið á Hellisheiði. Ætli það sé ekki upplagt að leggja í´ann kl:1900.

Kv

fimmtudagur, júní 21, 2012

Bláar myndir


Í gær fór fram fyrsti formlegi liðurinn í opinberi dagskrá V.Í.N.-ræktarinnar þetta árið.
Eins og kom fram hér var ætlunin að halda í Blákoll í Svínahrauni.
Það voru svo fjórar sálir sem hittust á Gasstöðinni og komu sér svo haganlega fyrir í Polly sem sá um að ferja mannskapinn fram og til baka. En þeir sem fóru voru:

Stebbi Twist
Krunka
Maggi Móses
Hvergerðingurinn

Skemmst er frá því að segja að allir  náðu að toppa og það gekk á með skin og skúrum. Svona svolítið dæmigert íslenskt sumarveður sem eiginlega enginn fatnaður hentar almennilega í.
En hvað um það ef einhver nennir þá má skoða myndir hér

Kv
Göngudeildin

miðvikudagur, júní 20, 2012

Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðalistinr:25

Þá er komið að þeim sem næzt síðastur er. Já bara einn eftir og Fimmvörðuhálsinn um komandi helgi sem loka undirbúnings-og eftirlitsferð í Bása. En hvað um það. Það hefur ekkert nýtt gerst í skráningarmálum en það er enn smá von fyrir áhugasama. En komum okkur bara að máli málanna.

Afkvæmi guðanna:

Stebbi Twist
Eldri Bróðurinn
Krunka
Bergmann
Frúin
Erfðaprinsinn
Gosi
Danni Djús
Billi
Plástradrottingin
Hvergerðingurinn


Kolefnisgjald:

Willy
Gullvagninn


Ekki hefur mikið gerst annað en spennan er að aukast.
Það er líka almannarómur sem gengur á þá leið að Plástradrottningin ætli að setja saman dundur Pottþétt Þórsmörk 2012 þann bezta hingað til

Kv
Skráningardeildin

þriðjudagur, júní 19, 2012

Blákollur Blámaður

Jæja góðir hálsar. Þá er komið að fyrsta liðnum í opinberi og formlegri dagskrá V.Í.N.-ræktarinnar árið 2012. Líkt og venjan er svona í upphafi er engu farið óðslega eins og í síðustu viku er Fíflavallafjall var sigrað. Nú á komandi Óðinsdag, bara á morgun, er stefnan tekin á Blákoll sem er ekki fjarri Litlu Kaffistofunni. Það er hittingur við Gasstöðina kl:1900 og ekið sem leið liggur að fjallsrótum. Þetta verður loka upphitun fyrir Fimmvörðuhálsinn sem er barasta um komandi helgi. Jaherna hér

Kv
Göngudeildin

sunnudagur, júní 17, 2012

Hálsinn sem kenndur er við verðina 5



Rétt eins og alþjóð ætti að vera kunnugt er ein af hefðum V.Í.N. að arka yfir 5Vörðuháls um Jónsmessuhelgina, kanna þar gönguleiðina yfir í Bása svona fyrir þá sem eru svo veruleikafirrtir að rölta Hálsinn Helgina. Að sjálfsögðu er ferðin nýt sem loka undirbúnings-og eftirlitsferð reyndar sú fyrsta og eina á þessu ári. Þvílíkur eymingjaskapur sem það er nú.
En hvað um það. Þar sem ætlunin er að fara komandi flöskudagskveld og rölta aðfararnótt laugardags þá væri kannski ágætt að fá einhverja hugmynd um hverjir ætla að mæta svo hægt sé að pæla aðeins í bílamálum. Sú hugmynd er líka komin upp að henda rolluafturhásingum ofan í holu og snæða svo um laugardagskveldið og vegna kaupa á hásingunum væri gott að fá tölu. Skiptir þá litlu hvort fólk komi á laugardeginum og verði bara með á laugardagskveldinu eða alla helgina. Verið ófeimin að tjá sig í skilaboðaskjóðunni hér að neðan

Kv
Göngudeildin

laugardagur, júní 16, 2012

Á slóðum þingverja



Eins og margir eflaust muna þá var hér viðruð sú hugmynd að fara og tjalda einhverstaðar um helgina. Plástradrottingin lýsti yfir áhuga á einnar nætur för og í kjölfarið ákvöðu þær stöllur þe í samráði við Krunkhildi að halda skyldi á landsins helga stað sem ku vera Þingvellir. Sem á tímum hækkandi eldsneytisverðs er alveg hæfilega langt frá Borg óttans
Brabrasonurinn hafði svo samband á flöskudag og var að forvitnast um helgarplön en hefur svo ákveðið að gjöra annað því ekki lét hann sjá sig. En hvað um það. Þarna voru:

Hvergerðingurinn
Plástradrottingin

á Tinnu


Stebbi Twist
Hrabbla

á Henry


Þetta svo sem róleg og fátt sem gjörðist sem telja má til tíðinda. Það var rennt í þjóðgarðinn um 1900 og byrjað að skutla sauðlaukum á grillið, slegið upp tjöldum, grillað kjet, það étið, sötrað öl, spjallað og hlegið. Svo var einhverntíma farið ofan í poka.
Á laugardagsmorgni var liðið vakið með yfirflugi á nokkrum þyrilvængjum. Í rólegheitum var snæddur morgunverður og kaffi með. Síðan var bara aftjaldað og skundað til byggða með viðkomu í sundi í Mosó.
En allavega fyrir áhugasama má skoða myndir hér

föstudagur, júní 15, 2012

Fíflvellingar


Nú síðasta Týsdag heldu fjórmenningar út á Reykjanesskaga í fyrsta dagskrálið V.Í.N-ræktarinnar 2012, sem var reyndar óformlegur, á Fíflavallafjall. En þarna voru á ferðinni.

Stebbi Twist
Krunka
Þverbrekkingurinn
Hvergerðingurinn

og sá sjálfur Henry Ford um að koma okkur til og frá fjallinu

Skemmst er frá því að segja að þetta gekk (bókstaflega) eins og í sögu. Allir toppuðu allt þetta fjall og skiluðu sér sælir og glaðir aftur niðri í bíll. En hvað um það. Fínasta og rólegheita rölt í góðum félagskap. Það kemur nú vart neinum á óvart að það var myndavél með í för og má sjá afraksturinn hér

Kv
Göngudeildin

fimmtudagur, júní 14, 2012

Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðalistinr:24

Já góðir gestir. Það er ekki nema rétt um svo hálfur mánuður í Helgina og þá verður einmitt haldin Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð sem er magnað. Ekki laust við að það sé komin einhver spenningur í mannskapinn. Enda er ekki nema rétt svo vika í undirbúnings-og eftirlitsferð í Bása þar sem líka er ætlunin að rölta 5Vörðuhálsinn um leið. Amk hjá einhverjum. En hvað um það. Komum okkur bara að því sem máli skiptir þessa vikunna.

Trúðar:

Stebbi Twist
Eldri Bróðurinn
Krunka
Bergmann
Frúin
Erfðaprinsinn
Gosi
Danni Djús
Billi
Plástradrottingin
Hvergerðingurinn


Trúðabílar:

Willy
Gullvagninn

Ekki hefur mikið bæst í hópinn en almannarómur segir að Matti Skratti ætli að láta sjá sig en það hefur ekki fengist staðfest
Bara þá þangað til í næztu viku

Kv
Skráningardeildin




miðvikudagur, júní 13, 2012

Hvað gjöra skal á helginni



Eftir vel heppnaða og skemmtilega helgi sem var sú síðasta er kominn smá helgarfiðringur í drenginn.
Það eru komnar nokkrar hugmyndir varðandi helgina. Hef það frá Hvergerðingnum Plástradrottningin hafi viðrað þá hugmynd að hittast í Heiðmörk á flöskudagskveldið og grilla þar í sameingu. Það hljómar vel og er prýðisgóð hugmynd amk ef það viðrar vel.
Svo var líka búið að skjóta þvi að fara í dagsferð á laugardag og skunda á Bláfell á Kili og heilza þar upp á tröllið Bergþór sem þar býr,  hljómar líka gríðarvel. Hef nú reyndar aðeins við það að bæta að hafa tjöld með og vera aðfararnótt messudags á tjaldsvæðinu við Faxa. Allavega það eru komnar nokkrar hugmyndir á blað og orðið er frjálst í skilaboðaskjóðunni hér að neðan.

Kv
Útilegudeildin

mánudagur, júní 11, 2012

Lake Monkey


Nú um síðustu helgi var loks blásið til alvöru og alveg þokkalega fjölmennri V.Í.N.-útilegu.  Hefur slíkt ekki gerst síðan aðra helgina í júlí á síðasta ári svona eftir því sem elstu menn muna. Brabrasonurinn hafði stungið upp á því að skella okkur að vatni Apanna þar sem pabbi Bjarkar er búinn að koma upp alveg sérdeilis prýðilegri aðstöðu með vatnsklósetum. Fyrri hópurinn fór úr Borg óttans að kveldi flöskudags og komu sér haganlega fyrir á einni flötinni þrátt fyrir örlítla klóaklykt í lofti. En þau sem komu á flöskudagskveldi voru:

Stebbi Twist
Krunka

á Henrý


Maggi á móti
Elín
Andrés Þór
Birgir Björn

á Ladý með skuldahalann í eftirdragi.

Laugardagurinn rann svo upp bjartur og fagur. Hann fór að meztu leyti í afslöppum og leiki m.a var kíkt á aparólu sem er við Apavatn, þvílík tilviljun.
Síðar um daginn renndu svo í hlað:

VJ
HT

á Blondí


Jarlaskáldið
Tóti

á ónefndum

Síðan kom rúsínan í pulsuendanum en það var enginn annar enn:

Tuddi Tuð
Auja
Bára

á Fjallajeppanum

Óhætt er að fullyrða að allir hafi notið veðurblíðunnar og félagskapar af hver öðrum og var gaman því hve fjölmennt þetta var þó vissulega hefði verið gaman að sjá fleiri.
Vegna útskriftar hjá Hvergerðingnum þurftum við hjónaleysin að hverfa af svæðu áður en eldun hófst en því er treyst að þar hafi verið miklar kræsingar uppi á borðum

Á messudegi var svo áframhaldandi blíða og var fólk bara í rólegheitum eitthvað frameftir  degi þangað til sveitaóttinn fór að gjöra vart við sig og fólk hóf að huga að heimför. Þá tvístraðist hópurinn þar sem fólk fór ýmist í sund eða á Stokkseyrabakka í humarsúpu. Stebbalingurinn og Spúzza gerðu heiðarlega tilraun til að komast í Marteinslaug en sökum hita var ekki svo mikið sem hægt að komast þar í fótabað en þó er amk búið að skoða hana og taka út.
Hafi einhver áhuga má skoða myndir frá helginni hér


Kv
Útilegufólkið

sunnudagur, júní 10, 2012

Ræktun á sál og líkama

Þar sem sumarið er nú að verða búið er kannski kominn tími á að blása smá lífi í V.Í.N.-ræktina.  Það kom sú ósk um helgina að þetta mæti fara að hefjast og kannski væri það ráð að byrja rólega. Þó svo að engin opinber dagskrá hafi verið gefin út er það engu að síður lagt til að hafist verði handa komandi þriðjudag kl:2000. Til þess að engin ofgeri sér í fyrstu ferð er lagt til að haldið verði á Fíflavallafjall við Djúpavatn og því kjörið að hittast við Esso í Gaflarabænum kl:1945 komandi þriðjudag með gönguskó og vatnsflösku.

Kv
Göngudeildin

miðvikudagur, júní 06, 2012

Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðalistinr:23

Það er nú betur heldur farið að styttast í mikla gleði og hátíð. Þá er barasta að birta nafnalista vikunnar

Skemmtikraftar:

Stebbi Twist
Eldri Bróðurinn
Krunka
Bergmann
Frúin
Erfðaprinsinn
Gosi
Danni Djús
Billi
Plástradrottingin
Hvergerðingurinn


Brummar:

Willy
Gullvagninn

Það kemur sjálfsagt engum á óvart að engin sé búin að bætast í hópinn frá síðustu viku en kannski gerist það á næztu dögum. Þangað til í næztu viku

Kv
Skráningardeildin

þriðjudagur, júní 05, 2012

Út að viðra tjöldin



Maggi á móti póstaði á snjáldursíðu V.Í.N. um að skella sér í útilegu um komandi helgi. VJ hefur lýst yfir áhuga að fara sem og Bergmann, verði heilza yngsta fjölskyldu meðlimarins eins og hún á að vera. Brabrasonurinn hafði stungið upp á vatni Apanna, já hvað varð af öpunum, hvert fóru þeir??? Það hljómar svo sem ekkert illa amk ekki fyrir okkir hjónaleysin þar sem við þurfum að vera í Blómabænum á laugardagskveldinu. Alla vega er undirritaður heitur fyrir að viðra Vangotjaldið fyrst retrotjaldið var viðrað um síðustu helgi. Vonandi að maður sjái sem flesta.

sunnudagur, júní 03, 2012

Retro



Nú um helgina var farið út úr bænum til að njóta blíðunnar á vesturlandi. Ekki var farið langt heldur haldið til á Þórisstöðum í Svínadal.  Þetta var nú aðallega fólk sem á það sameiginlegt að vera í FBSR og hafa gaman að ýmsu í lífinu. En þarna var líka þó nokkuð af gildum limum innan V.Í.N. sem og margir góðkunningjar.

V.Í.N-liðar:

Stebbi Twist
Krunka
Plástradrottningin (laumufarþegi)
Eldri Bróðurinn
Yngri Bróðurinn
Hvergerðingurinn


Góðkunningjar:

Benfield
Ísbjörninnn
Eyþór
Bogga
Mía
Mæja Jæja
Matti Skratti
Þórunn
Guðni
Billi

Ásamt fullt af öðru góðu fólki

Þeir sem komnir voru á laugardeginum skruppu í smá fjallgöngu upp á hól sem heitir víst Víðhamrafjall og þar fór einn ófæddur V.Í.N.-verji í sína fyrstu fjallgöngu. Og er það vel. Síðan tók við sund, grill og bjór sem og meiri sól.
Fyrir áhugasama má skoða myndir hér

föstudagur, júní 01, 2012

Tevufar



Eftirfarandi TEVU-Far reglur er frá Stórmeistara Danna Djús

Tevufarsreglur


1. Teva er alltaf skrifað með stórum staf, vegna virðingar, ekki vegna þess að orðið er sérorð. Æskilegast er að allir bókstafir séu með hástöfum (TEVA).

2. Teva fallbeygist á eftirfarandi hátt í íslensku

Eintala                                         Fleirtala



Teva                                           Tevur
Tevu                                           Tevur
Tevu                                           Tevum
Tevu                                           Teva


 

3. Það má alltaf, hvar og hvenær sem er monta sig og sína Tevufarið sitt. Enginn staður telst vera of fínn til þess. Æskilegt þykir að viðkomandi Tevufarsberi sé í hreinum sokkum, með hreinar fætur þegar til sýninga kemur.

4. Það er æskilegt að þeir einstaklingar sem bera Tevufar sýni öðrum þeim, sem bera Tevufar og hafa það sýnilegt, virðingu og hrósi viðkomandi. Til dæmis á sundstöðum. Árstími hefur ekkert að segja um þessa reglu.

5. Það er stranlega bannað að nota sokka þegar gengið er um í Tevum, sérstaklega á þetta við í útilegum og erlendis. Það er óþarfi að nefna það að sokkar, Tevur og stuttbuxur eiga ekki saman, aldrei saman og er hreinlega bara rangt. Regla þessi gildir alltaf, nema við nokkrar undantekningar sem teljast hér að aftan. Reglan gildir fyrst og fremst á keppnistímabilinu (frá byrjun maí til og með ágúst).

6. Að nota Tevur um hávetur (án eða með sokkum) utandyra telst sem fífldirfska og á ekkert skylt við þessar keppnisreglur.

7. Notkun sokka við Tevur á vinnustöðum, sérstaklega á við á skrifstofum, er í lagi. Æskilegt er að vera í svörtum sokkum við svartar Tevur og ljósum sokkum við ljósar Tevur. Annars er í lagi að vera í marglituðum sokkum, það kætir alla, í kringum þann Tevuklædda. Bent er á hinu almennu reglur fyrirtækja um að vera berfætt(ur) í inniskóm eða Tevum. Þessar reglur er oftast beintengdar stuttbuxnareglum fyrirtækisins, sem að öllu jöfnu banna slíkt. Bent er á að þessi regla á ekki við póstburðarmenn.

8. Keppnistímabilið er eingöngu frá byrjun maí og til loka ágúst, má lengja í vissum hópum, félögum, samtökum, félagasamtökum og/eða klúbbum. Of notkun sokka án gildrar ástæðu getur orsakað brottvísun úr keppninni. Ef meira en 30% keppenda á afmörkuðu svæði eru ekki í sokkum teljast hinir 30% brottvísir úr keppninni ef þeir fara ekki úr sokkunum eða í annan skófatnað hið fyrsta við ábendingu um slíkt ef engin gild ástæða er fyrir sokkavalinu.

a. Til gildra ástæðna telst ekki að kalt sé í veðri (hér er talað um á keppnistímabilinu). Það er í lagi að vera í sokkum eftir sólsetur á keppnistímabilinu og fram til klukkan sex að morgni. Undir flestum tilvikum er þetta um 5 klukkutímar eða svo, á keppnistímabilinu.

9. Þegar lofthitastig nær yfir 12°C og sólskin eiga allir keppendur að vera án sokka.

10. Sjálfkrafa teljast til keppenda allir meðlimir sama hóps, félags, samtaka, félagasamtaka og/eða klúbbs.

Reynslu saga Daníel Sigurbjörnssonar

Sumt má bara ekki gera þegar maður gengur í TEVA, það lærði ég í Amsterdam. Ég eignaðist mitt fyrsta par árið 1996 og ákvað að kaupa mér F1 týpuna af þeim (að mig minnir að hún hafi heitið þá). Af einhverjum ástæðum voru Tevurnar ekki notaðar mikið í fyrstu. Í flestum tilfellum voru þær eingöngu notaðar í útilegum og sem inniskór í framhaldsskóla. Þegar ég fór svo að vinna á fullu sem rafvirki urðu þær að vörkumerki mínu ásamt myndasokkum frá The Sock Shop. Það má ekki gleymast að það var ekki fyrr en árið 1999 í Amsterdam að ég uppgötvaði að ég væri Íslendingur. Þar var ég ásamt 2 vinum mínum, þeim Tóta og Bensa. Þegar við gengum inn í eina verslunina, allir í Teva, af sjálfsögðu, þá bað afgreiðslustelpan vinsamlegast að fara út, fara úr sokkunum og koma svo aftur inn. Eftir þetta þá hef ég frelsað fæturna mínar frá böl sokkanna þegar það á sjálfsögðu við. Ég hætti ekki að vinna sem rafvirki og notaði Tevurnar óspart. Til þess að lífga aðeins upp á virku daga varð ég einstaklega velbúinn sokkum frá The Sock Shop í Kringlunni, því ekki telst það viðeigandi að fá berfættan rafvirka í heimsókn þótt í Tevum sé.

Fyrstu Tevurnar mínar, keyptar í Skátabúðinni, 1996, á Snorrabrautinni, voru F1 eins og áður kom fram, lifðu fram til ársins 2001. Þá voru þær skildar eftir á Roskilde hátíðinni. Þær höfðu farið vítt og braut um Ísland og náð að fara í þrennar utanlandsferðir og það í þremur heimsálfum. Par númer 2 voru líklega keypt í Nanoq, þó ég muni það ekki alveg, líklegast nokkrum mánuðum síðar. Það var Teva F1. Þær náðu að lifa fram í október 2008. Þá var þeim hreinleg hent. Þetta par náði að ferðast vítt og breitt um Ísland, lifðu tvenna háskóla, þrennar íbúðir í Danmörku og endalausar flugferðir á milli Danmerku og Íslands, og loks aðeins eina desideraða utanlandsferð. Þrenna parið fékk ég svo í afmælisgjöf haustið 2008. Þetta eru Teva F2. Það má búast við því að þær lifi að minnsta kosti 5 ár. Það sem vanalega fer með þær er ekki að þær slitni, rifni eða fari illa. Það er fyrst og fremst lyktin sem gerir út af við þær, eftir endalausa notkun. Þessar þriðju Tevur hafa nú þegar komist í 3 heimsálfur.